Quantcast
Channel: Lönsj & Latte
Viewing all 122 articles
Browse latest View live

bækur og kaffi | gleðilegt ár

$
0
0


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði siðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég er ekki búin að klára síðasta bókalista en fór lesandi Louisa May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilin fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.



kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever & Hokusai

$
0
0


Nýverið minntist ég á að ég væri með nokkrar kaffiborðsbækur í augsýn. Sumar eru þegar komnar út; aðrar koma fljótlega eða í vor, eins og Hokusai: Beyond the Great Wave. Á listanum hér að neðan er ein sem ég er þegar byrjuð að lesa með miklum áhuga, Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home eftir Lucinda Hawksley, sem var jólagjöf frá vinkonu. Í bókinni eru kynntar 275 prufur af veggfóðri sem voru rannsakaðar og reyndust innihalda arsenik.

Mig hefur langað að bæta við nýrri listabók á kaffiborðið mitt og ég held að ég hafi fundið þá réttu, Hokusai: Beyond the Great Wave. Í bókinni eru 300 myndir af verkum japanska listamannsins Katsushika Hokusai (1760–1849), sem hann skapaði á síðustu þrjátíu árum ævi sinnar. Útgáfa bókarinnar (snemma í maí) á sér stað samhliða sýningu sem opnar í British Museum þann 25. maí, og lýkur í ágúst. Það sem mig langar að komast til London til að sjá sýninguna og eyða nokkrum dögum í Bloomsbury-hverfinu.

Katsushika Hokusai, Clear day with a southern breeze (Red Fuji), 1831

Við skulum kíkja á listann yfir kaffiborðsbækurnar, í handahófskenndri röð með stuttum athugasemdum við hverja (kannski hafið þið séð einhverjar hér til hliðar á blogginu):


· The Japanese House: Architecture and Life: 1945 to 2017  eftir Pippo Ciorra og Florence Ostende (Marsilio). Ef arkitektúr er ástríða ykkar þá tekur þessi yfirgripsmikla bók fyrir japanskan arkitektúr frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar til nútímans.
· The Long Life of Design in Italy: B&B Italia. 50 Years and Beyond  eftir Stefano Casciani (Skira). Árið 1966 stofnaði Piero Ambrogio Busnelli ítalska húsgagnafyrirtækið B&B Italia og núna getum við notið sögu þess í fallegu riti (sjá stutt myndbandá vefsíðu þeirra).
· Blumarine: Anna Molinari eftir Elena Loewenthal, í ritstjórn Maria Luisa Frisa (Rizzoli). Drottning rósarinnar, hönnuðurinn Anna Molinari, hjá ítalska tískuhúsinu Blumarine á marga aðdáendur. Ég held að margt áhugafólk um tísku bíði eftir útgáfu þessarar bókar, sem inniheldur ljósmyndir eftir menn eins og Helmut Newton, Tim Walker, Albert Watson og Craig McDean. Ég myndi kaupa hana bara vegna bókakápunnar!
· Adobe Houses: House of Sun and Earth  eftir Kathryn Masson (Rizzoli). Mig langar að komast yfir þessa sem sýnir 23 heimili í Kaliforníu, innan- og utandyra. Adobe-hús með hvítþvegnum veggjum og sýnilegum bjálkum ... já takk.
· Art House: The Collaboration of Chara Schreyer & Gary Hutton  eftir Alisa Carroll (Assouline). Myndræn veisla: fimm heimili hönnuð með það að markmiði að rúma 600 listaverk, samstarf listaverkasafnarans Schreyer og innanhússhönnuðarins Hutton.
· Flourish: Stunning Arrangements with Flowers and Foliage  eftir Willow Crossley (Kyle Books). Ef ykkur langar að endurskreyta heimilið með blómum þá er ég viss um að þið getið sótt innblástur í bók Willow Crossley, sem Emma Mitchell ljósmyndaði fallega.
· Around That Time: Horst at Home in Vogue  eftir Valentine Lawford og Ivan Shaw (Abrams Books). Ég hef ekki enn fundið þessa í bókabúð, bara séð umfjöllun í tímaritum (það glittir í eina á neðstu myndinni). Bókin inniheldur, meðal annars, ljósmyndir eftir Horst P. Horst sem birtust í Vogue's Book of Houses, Gardens, People frá árinu 1968 (lífsförunautur hans Valentine Lawford skrifaði textann). Formála bókarinnar skrifar Hamish Bowles hjá Vogue. Sjá meira hér.
· Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home  eftir Lucinda Hawksley (Thames & Hudson, gefin út í samstarfi við The National Archives). Fyrrnefnd bók sem sýnir 275 prufur af veggfóðri eftir hönnuði eins og Corbière, Son & Brindle, Christopher Dresser og Morris & Co. (Sjá meira hér að neðan.)
· Hokusai: Beyond the Great Wave  eftir Timothy Clark, Shugo Asano og Roger Keyes (Thames & Hudson). Fyrrnefnd bók um japanska listamanninn Katsushika Hokusai sem inniheldur verk sem hann skapaði á síðustu þrjátíu æviárunum. Í bókinni fær dóttir hans Eijo (Ōi) löngu tímabæra athygli, en hún telst til listamanna Edo-tímabilsins, á síðari hluta 19. aldar. Útgáfa bókarinnar á sér stað samhliða sýninguí British Museum sem opnar í maí.

Smáatriði af verki Hokusai, The poet Rihaku lost in wonder at the majesty of the great waterfall

Ég varð að birta hér myndir af tveimur verkum Hokusai í því sem líklega útleggst á íslensku sem viðarprent (e. woodblock printing). Ferill hans spannaði sjö áratugi en flestir þekkja til verkanna sem hann skapaði á síðari hluta ævinnar. Blái liturinn, hinn prússneski blái, eins og hann kallast, hefur alltaf heillað mig og laðað mig að verkum Hokusai.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skoða fleiri verk eftir Hokusai (eða annað listafólk) þá má finna gott yfirlit verka hans á vefsíðu Artsy og ritstjórnargrein með skemmtilegum staðreyndum. Artsy er vefsíða sem ég bætti bara nýlega á listann minn og varð strax í uppáhaldi (þau eru líka með hlaðvarp). Stefna Artsy er að gera alla list heimsins aðgengilega þeim sem hafa netaðgang.

„Blue Bird Amongst the Strawberries“, mynstur eftir Charles F. A. Voysey, minnir á hið þekkta „Strawberry Thief“
frá 1883 eftir William Morris. Úr bókinni
  Bitten by Witch Fever, bls. 131

Við lestur Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home, sem ég er ekki búin að klára, hef ég gert mér grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um að eitraðir litir hefðu verið notaðir til að hanna veggfóður án þess að það teldist hættulegt (það var Carl Wilhelm Scheele sem árið 1775 notaði arsenik til að búa til grænan lit, Scheele's Green, sem varð vinsæll og var t.d. notaður til að búa til skæran grænan lit fyrir veggfóður):
Many dismissed as ludicrous the doctors who held that the wallpapers were poisonous, including English wallpaper designer William Morris, who stated that they 'were bitten as people were bitten by the witch fever'. (bls. 7)
Ég varð að fletta upp í síðasta kaflanum til að komast að því að veggfóður laus við arsenik voru ekki framleidd í Bretlandi fyrr en 1859, án þess að almenningur veitti því sérstaka eftirtekt. Þar var ekki fyrr en upp úr 1870 að Morris & Co. „létu loksins undan þrýstingi almennings“ og þá varð það „stórfrétt“ (bls. 226). Þessi bók er svo sannarlega áhugaverð svo ekki sé minnst á fallega hönnun: Það eru sjö stuttir kaflar - í útliti eins og bæklingar - á milli kafla með mynstrum í litaröð, sem sýna veggfóðrin sem voru rannsökuð.

Ljósgrænn. Corbière, Son & Brindle, London, UK, 1879. Úr bókinni  Bitten by Witch Fever, Mynsturkafli V, bls. 141

myndir mínar | Katsushika Hokusai listaverk af vefsíðum: 1. The British Museum, 2. Thames & Hudson Útgáfulisti vor 2017


brauðbollur | tómatsúpa með næpum og steinselju

$
0
0


Matarmiklar súpur og heimagerðar brauðbollur halda mér gangandi þessa dagana þegar í huganum mig langar eina helst að flýja til annarrar plánetu. Í alvöru, ég held að þetta Trump-hugmyndafræði-tímabil sem við erum stigin inn í sé að hafa neikvæðari áhrif á mig en ég bjóst við. Tilhugsunin um fjögur ár af „öðrum mögulegum staðreyndum“ er allt annað en upplífgandi. Veit ekki hvar ég væri án bóka; í viðleitni minni til að forðast fréttir er ég byrjuð að hlusta á hlaðvörp um bækur frá árinu 2012! Lít á það sem þerapíu. Einnig það að eyða gæðastundum í eldhúsinu. Ljósmynd af brauðbollum sem ég birti á Instagram á sunnudaginn var kveikjan að þessari bloggfærslu. Tvær manneskjur báðu um uppskriftina og ég ákvað að baka þær aftur og deila á blogginu ásamt annarri uppskrift að tómatsúpu með næpum og steinselju.

Uppskriftin að brauðbollunum er í raun brauðuppskrift (án fræja) sem er prentuð á umbúðir af fljótvirku geri frá Doves Farm (e. quick yeast). Það þarf ekki að virkja það heldur er því bara blandað saman við mjölið á undan vökvanum. Sesamfræin eru mín viðbót og oftast strái ég þeim og birkifræjum (e. poppy seeds) yfir bollurnar. Í upprunalegu uppskriftinni er hefðbundið hveiti en þegar ég baka bollurnar kýs ég að skipta út 60 grömmum (¼ bolli) af fínmöluðu fyrir grófmalað spelti, rétt til að auka trefjarnar.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

500 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
1 teskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið Doves Farm fljótvirkt ger
1 matskeið sesamfræ
275-300 ml heitt vatn
1 matskeið kókosolía (eða önnur jurtaolía)
má sleppa: mjólk/sojamjólk til að pensla bollurnar
og sesam- og birkifræ til að strá yfir


Blandið saman mjöli, salti, sykri, fljótvirku geri og sesamfræjum í stórri skál með sleif.

Blandið heitu vatni saman við, byrjið með 275 ml, og bætið olíunni saman við þegar deigið fer að festast saman (ef þið notið kókosolíu látið þá krukkuna standa í heitu vatni fyrir notkun). Bætið 1-2 matskeiðum af vatni saman við ef þörf er á.

Stráið örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 4-5 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið viskustykki yfir. Látið deigið hefast á hlýjum stað í alla vega 35 mínútur.

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið með mjólk/sojamjólk og stráið sesam- og birkifræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.


Recipe in English


Bragð súpunnar skrifast að hluta á tvö yngstu börnin. Það var á köldum degi sem okkur langaði í súpu með næpum, selleríi og linsubaunum. Við elskum rófur og næpur (þessar hvítu eða gulleitu með fjólubláum blæ); þær gefa trefjar, B6- og C-vítamín til að nefna einhver heilsubætandi áhrif. Við kíktum á netið og fundum uppskrift að rauðri linsubaunasúpu með næpum og steinselju á vefsíðu Martha Stewart, sem við notuðum sem innblástur. Megin munurinn er sá að við notum mun minna af linsum í okkar og við völdum niðursoðna plómutómata í stað hrárra tómata. Þessi er búin að malla í pottinum á köldum dögum í janúar.

TÓMATSÚPA MEÐ NÆPUM OG STEINSELJU

1 matskeið létt ólífuolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar
1 næpa
1 dós (400 g) plómutómatar
1250 ml vatn
60 g / 75 ml rauðar linsubaunir
klípa broddkúmen (ground cumin)
klípa reykt paprika
1 lítið lárviðarlauf
½-1 teskeið gróft sjávar/Himalaya salt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk
1 teskeið Modena balsamedik
75 ml fínsöxuð fersk flatblaða steinselja


Byrjið á grænmetinu. Afhýðið og saxið laukinn. Sneiðið selleríið fínt. Afhýðið hvítlauksrifin, sneiðið eitt fínt og pressið hin tvö þegar þau eiga að fara í pottinn. Afhýðið næpuna, skerið í bita og setjið til hliðar.

Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið lauk, sellerí og hvítlauk í 5 mínútur eða þar til mjúkt og hrærið rólega á meðan.

Stillið á hæsta hita og bætið plómutómötum ásamt vökva, rauðum linsum (skolið fyrst), næpubitum og vatni út í. Hitið að suðu, minnkið hitann, bætið ½ teskeið af salti út í og lófafylli af saxaðri steinselju og svörtum pipar. Eldið við vægan hita í 25 mínútur.

Undir lokin skuluð þið hræra út í pottinn balsamedikinu, restinni af steinseljunni og salta örlítið meira ef þarf. Til að gera matarstundina enn notalegri berið þá súpuna fram með heimabökuðu brauði eða brauðbollum.


Recipe in English

Nýleg mynd á Instagram sem var kveikjan að þessari bloggfærslu


Map Stories eftir Francisca Mattéoli

$
0
0


Munið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af Map Stories: The Art of Discovery, nýjustu bókinni eftir Francisca Mattéoli sem sérhæfir sig í ferðaskrifum, gefin út af Octopus (Ilex). Hún notar tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggiá frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.

Map Stories: The Art of Discovery
Eftir Francisca Mattéoli
Octopus
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
KAUPA


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

myndir mínar | fyrir utan nr. 2, 4-6, birtar með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library


№ 7 bókalisti | Vanessa Bell-sýning

$
0
0


Í gamla minnisbók hef ég skrifað tilvitnun sem fær mig alltaf til að hlæja. Leikkonan Emma Thompson var í NYT-dálkinum By the Book og þegar hún var spurð út í síðustu bókina sem fékk hana til að gráta svaraði hún: „I was on holiday years ago with “Corelli’s Mandolin.” Rendered inconsolable and had to be put to bed for the afternoon“ (Sunday Book Review, 23.09.2012). Ég dýrk'ana. Það er kominn tími á annan bókalista og bók Bernières er á honum, Vintage Books-útgáfa, fallega myndskreytt af Rob Ryan. Þarna er líka skáldsaga eftir Sigurð Pálsson, sem er í miklu uppáhaldi. Ég sá hann stundum á kaffihúsum í Reykjavík, alltaf svo smart til fara, gjarnan með mynstraðan silkihálsklút eða alpahúfu (hann lærði í Frakklandi). Ég hef þegar minnst á Doris Lessing og að ég væri að endurlesa Little Women. Hér er № 7 bókalistinn, sá fyrsti árið 2017 (til þæginda hef ég númerað listana):

· Fictions  eftir Jorge Luis Borges
· The Grass is Singing  eftir Doris Lessing
· The Golden Notebook  eftir Doris Lessing
· Captain Corelli's Mandolin  eftir Louis De Bernières
· Instead of a Book: Letters to a Friend  eftir Diana Athill
· Local Souls  eftir Allan Gurganus
· Parísarhjól  eftir Sigurð Pálsson
· In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910  eftir Sue Roe
· Little Women  eftir Louisa May Alcott


Ég er næstum því með samviskubit yfir því að hafa ekki lesið æviminningar Athill, Instead of a Letter, en þegar ég sá Instead of a Booká útsölu í Waterstones vissi ég að hún færi á listann minn. Í bókinni eru bréf sem hún skrifaði í yfir þrjátíu ár til ameríska ljóðskáldsins Edward Field, sem geymdi þau og vildi gefa út. Í innganginum bendir Athill gamansamlega á:
Usually when someone's letters are published the writer is dead. In this case there was a problem: Edward is six years younger than I am, but since I'm ninety-three that doesn't make him young. If he waited until I was dead he might be dead too. (bls. vii)
Hrós til rithöfunda sem fá mann til að skella upp úr í bókabúð! Gurganus er höfundur sem ég hef ekki lesið áður. Ég keypti bókina hans eftir að hafa hlustað á samræður Michael Silverblatt við hann í Bookworm (þætti frá nóv. 2013) og endaði á því að hlusta á allar samræður þeirra. Ég var að hugsa um að setja hana upp í hillu og lesa fyrst Oldest Living Confederate Widow Tells All, en bókin togaði í mig og fór á listann. Það gladdi mig að finna bók Roe á bókasafninu. Á þessum tímapunkti get ég lítið sagt um hana annað en að ég vildi að í henni væru fleiri myndir (á myndinni minni hér að ofan sést í málverk Modigliani, Caryatid, 1911).

Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916

Stundum óskaði ég þess ég byggi nær London. Ef svo væri myndi ég taka næstu lest til að sjá Vanessa Bell-sýningunaí Dulwich Picture Gallery sem opnar í dag (þangað er stutt lestarferð frá miðri London). Listakonan Vanessa Bell (1879–1961) tilheyrði bóhemíska Bloomsbury-hópnum og var systir Virginia Woolf (ljósmyndin af henni sem sést á myndinni minni er tekin fyrir utan Charleston árið 1925). Sýningunni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna kemur út bókin Vanessa Bellí ritstjórn Sarah Milroy (Philip Wilson Publishers) sem mig langar að eiga. Ef þið eruð Bell-aðdáendur þá langar mig að benda ykkur á safnaratölublaðHarper's Bazaar UK, mars 2017, sem er eingöngu fáanlegt í gegnum Dulwich-safnið.

Es. Mig langar að þakka bloggaranum Diana Mieczan sem skrifar exPress-o fyrir skemmtilega umfjöllun um mitt blog. Hún bendir réttilega á að undir kaffibollanum mínum er yfirleitt að finna tauservíettu. Ég byrjaði á þessu fyrir löngu síðan og vil meina að kaffið bragðist betur.

mynd mín | ljósmynd af Vanessa Bell er úr bókinni Charleston: A Bloomsbury House & Garden | málverk Amedeo Modigliani er úr bókinni In Montmartre© Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris | málverk Vanessa Bell er af vefsíðu Art UK© 1961 estate of Vanessa Bell, Henrietta Garnett, Swindon Art Gallery


lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf

$
0
0


Ég veit ekki með ykkur en í bókabúðum stend ég mig oft að því að lesa fyrstu setningu bókar eða fyrstu málsgreinina. Ég kíki aldrei á lokasetninguna því ég vil ekki vita hvernig bókin endar, en ég þekki nokkra sem gera það. Í janúar kláraði ég að lesa The Makioka Sisters eftir japanska rithöfundinn Jun'ichiro Tanizaki (1886-1965), í þýðingu Edward G. Seidensticker (útgáfa frá Everyman's Library). Án þess að gefa upp sögulokin þá verð ég að deila með ykkur lokasetningunni, sem óþarfi er að þýða: „Yukiko's diarrhea persisted through the twenty-sixth, and was a problem on the train to Tokyo“ (bls. 498).

Þurfið þið að lesa þessa setningu aftur? Ég þurfti þess.

Í hvert sinn sem ég lýk lestri bókar þá koma venjulega upp í hugann persónur, söguþráður og -lok, þemu o.s.frv, og stundum skrifa ég kannski nokkrar línur í minnisbókina mína. Í þetta sinn var hugurinn eitthvað á þessa leið, Okei, vantar kafla í bókina? Er þetta endirinn?Ég meira að segja sneri bókinni við - ég held að ég hafi rólega hrist hana - til að finna kaflann sem vantaði. Þegar ég svo loksins áttaði mig á því það var ekkert meira, að þetta var lokasetningin, þá sprakk ég úr hlátri. Þetta er ein sú eftirminnilegasta lokasetning sem ég hef nokkurn tíma lesið.

Ég fæ enn hláturkast þegar ég horfi á þessa síðu; þessi lokasetning kemur úr svo óvæntri átt.

Prósi bókarinnar The Makioka Sisters er mjög róandi (á meðan lestrinum stóð sagði ég við vini að þetta væri stundum eins og hugleiðsla). Ég man ekki eftir bók með svo rólegum prósa. Hún er nokkuð löng, skiptist í þrjá bækur, en ég naut þess að lesa hana. Í aðalatriðum fjallar hún um leit Makioka-fjölskyldunnar að eiginmanni fyrir þriðju systurina þannig að hægt sé að gifta þá fjórðu og yngstu, sem er þegar komin með vonbiðil. Þemað er eins og í hvaða skáldsögu sem er eftir Jane Austen en stíllinn er gjörólíkur. Þetta er áhugaverð samfélagsskoðun, á japanskri menningu og siðum, á ákveðnu tímabili: Bókin hefst árið 1936 og lýkur í apríl 1941; stríð geisar þegar í Evrópu en árásin á Pearl Harbor hefur enn ekki átt sér stað. Þegar lestrinum lýkur þá veit maður að stórkostlegar breytingar eru í vændum.

The Makioka Sisters var á № 6 bókalistanum mínum og þá sagðist ég vera að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum lista. Á honum munuð þið finna The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu, klassískt japanskt verk frá 11. öld, sem margir telja fyrstu skáldsögu heimsins, sem Tanizaki þýddi yfir á nútímalegra japanskt mál. Á listanum verður líka Some Prefer Nettles eftir Tanizaki - ég segi ekki meira þar til ég birti hann.

Úr umfjöllun um Virginia Woolf, „Bloomsbury & Beyond“, Harpar's Bazaar UK, mars 2017, bls. 324-25

Kannski hafið þið þegar séð Vanessa Bell-umfjöllunina sem ég deildi á Instagram í síðastu viku, úr Harper's Bazaar UK, marstölublaðinu 2017. Það eru mánuðir síðan ég keypti tískutímarit en ég næstum hljóp út í búð þegar ég sá að bæði Bell og systir hennar Virginia Woolf voru í menningarþættinum. Umfjöllunin um Woolf kallast „Bloomsbury & Beyond“ og byrjar á ljósmynd af skrifborðinu hennar í Monk's House, heimili hennar í Sussex (sjá efstu myndina mína), og lýkur með smásögunni The Lady in the Looking Glass, sem birtist í janúartölublaðinu 1930. Ódýr Penguin-útgáfa af The Lady in the Looking Glass inniheldur líka sögur hennar A Society, The Mark on the Wall, Solid Objects og Lappin and Lapinova. Sú síðasta birtist í apríltölublaðinu 1939, en hún sést efst í vinstra horninu á myndinni minni hér að ofan. Ef þið hafið áhuga á smásögum þá má held ég finna allar eftir Woolf á netinu.

myndir mínar | heimildir: Harper's Bazaar UK, mars 2017 · Harry Cory Wright | Frakklandskort úr bókinni Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli (Octopus Publishing Group) © Bibliothèque Nationale de France


ár af lestri - 1. hluti

$
0
0


Hérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book-dálki NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið hana kannski á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk hana lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti (2 af 8):
· The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski. Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.
· The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux. Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti bæði áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í bókahjartanu mínu.

№ 2 bókalisti (1 af 6):
· Off the Road eftir Carolyn Cassady. Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.
[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]


№ 3 bókalisti (2 af 6):
· Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir. Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu þrjú bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.
· Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement. Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar stelpan fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.


ár af lestri - 2. hluti

$
0
0


Eigum við að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í færslunni Ár af lestri - 1. hluti, þar sem ég setti niður hugsanir mínar um verk sem voru á bókalistunum mínum í fyrra? Eins og ég tók fram þar þá minnist ég ekki á bækur sem ég hef þegar fjallað um og þær sem ég endurlas. Bókalistarnir fara bara eftir skapi hverju sinni og þær bækur sem enda á þeim hafa verið í lengri eða skemmri tíma á langar-að-lesa listanum mínum (sem verður sífellt lengri og lengri!). Nokkrar bækur ollu mér vonbrigðum en það mátti svo sem búast við því. Hér á eftir er álit mitt á nokkrum sem voru á № 4, 5 og 6 bókalistunum:

№ 4 bókalisti (4 af 10):
· Siddhartha eftir Hermann Hesse. Þetta klassíska rit er líklega áhugaverðara fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin á andlegri braut eða þekkja ekki til búddisma og austrænnar heimspeki. Lesturinn gerði lítið fyrir mig og ég kláraði bara bókina til þess að geta hakað við hana á listanum mínum. (Fyrir þá sem vilja fræðast um búddisma mæli ég frekar með almennu riti eftir kennara í fræðunum. Til að gefa ykkur hugmyndir þá eru hérna nokkrir sem ég las á ákveðnu tímabili í lífinu: Thich Nhat Hanh, Joseph Goldstein, Jack Kornfield, Sharon Salzberg og Pema Chödrön.)
· The Summer Book og A Winter Book eftir Tove Jansson. Þegar ég deildi listanum hafði ég lesið tvær sögur í þeirri síðari en var komin langt inn í þá fyrri, sem mér fannst yndisleg. Sögusafnið í The Summer Book er sterkara og sögurnar tengjast betur saman, einkum vegna sömu eftirminnilegu persónanna.
· In Other Rooms, Other Wonders eftir Daniyal Mueenuddin. Leið eins og ég væri með fjársjóð í höndunum þegar ég hóf lesturinn en svo varð söguþráðurinn í þessum lauslega tengdu smásögum fyrirsjáanlegur. Það er svo mikil spilling og óréttlæti á síðunum að ég var farin að þrá að lesa eitthvað meira upplífgandi. Ég var að vonast til að þessi bók kenndi mér meira um pakistanska menningu, og vegna allra jákvæðu dómanna sem bókin fékk bjóst ég við einhverju ríkara.
[Önnur af listanum: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking (sjá sér bloggfærslu).]


№ 5 bókalisti (4 af 7):
· A Time for Everything eftir Karl Ove Knausgård. Ekkert að skrifunum en ég ákvað að klára ekki bókina einfaldlega vegna þess að ég var ekki í skapi fyrir hana. Þetta er bók um engla og hann breytir sjónarsviði biblíusagna; fer með okkur úr eyðimörkinni í norskt landslag. Einn daginn held ég kannski lestrinum áfram en fyrst myndi ég vilja lesa að nýju upprunalegu sögurnar.
· White Teeth eftir Zadie Smith. Bókin sem mig langaði svo að þykja góð og mæla með. Ég hef ekki enn klárað hana. Mér líkar ritstíllinn en persónurnar vekja ekki áhuga minn. Stundum tek ég hana upp - með semingi, verður að viðurkennast - og eftir nokkrar síður gefst ég upp. Mér fannst perónusköpun hennar í bókinni NW miklu áhugaverðari. Í þeirri bók gerir Smith tilraunir með skáldsöguformið sem er kannski ekki öllum að skapi. Ég átti svolítið erfitt með fyrsta hlutann af NW en þegar ég kom í annan hlutann þá gat ég varla lagt hana frá mér.
· Purple Hibiscus eftir Chimamanda Ngozi Adichie. Yndislegur frásagnarstíll og persónusköpun í þessu fjölskyldudrama sem stundum sjokkeraði mig - faðirinn er trúarofstækismaður sem beitir heimilisofbeldi. Fyrir viðkæma lesendur langar mig að bæta við að þarna er líka fegurð og von. Adichie hefur þann hæfileika að geta lýst skelfilegum atburði en í kjölfarið virðast fallegar setningar hennar bæði róa og græða. Þessi bók hefur ekki farið úr huga mér síðan ég kláraði hana. Adichie er auk þess í miklu uppáhaldi.
[Önnur af listanum: Avid Reader eftir Robert Gottlieb (sjá sér bloggfærslu).]

№ 6 bókalisti (4 af 8):
· The Noise of Time eftir Julian Barnes. Mér fannst fyrstu tveir hlutarnir góðir en held að þetta sé ein af þessum bókum sem ég mun gleyma. Barnes ímyndar sér líf tónskáldsins Dmitri Shostakovich á tímum Stalíns. Bókin gerði lítið fyrir mig og að lestri loknum tók ég bara upp þá næstu.
· All We Shall Know eftir Donal Ryan. Ég minntist á í færslunni að mér líkaði ritstíll hans. Hlutar þessarar bókar eru svolítið myrkir; ég held að ég hafi stundum haldið niðri í mér andanum. Mér fannst persónan Mary stela senunni; hún var miklu áhugaverðari en aðalpersónan Melody. Galli bókarinnar er endirinn. Allt er mögulegt í skáldskap en sögulokin hér gengu ekki upp (get ekki sagt meira án þess að gefa þau upp). En Ryan er höfundur sem er kominn á listann minn og mig langar að lesa fyrri verk hans.
· Boyhood Island: My Struggle 3 eftir Karl Ove Knausgård. Af þeim þremur My Struggle-bókum sem ég hef lesið finnst mér þessi vera hans sísta. Styrkleikar hennar eru sú mynd sem hann málar af föðurnum sem hann hataði (skiljanlega) og samskiptum fjölskyldunnar. Veikleikarnir eru alltof margar endurteknar lýsingar á leikjum við krakka í nágrenninu og skólafélaga. Þessi bók hefði getað verið 100 síðum styttri og betri.
· The Return eftir Hisham Matar. Ein af þessum bókum sem ég hlakkaði til að lesa en fyrir utan fyrstu fimm kaflanna varð ég fyrir vonbrigðum. Ritstíll þessara fyrstu fimm kafla, sem er ólíkur hinum, var mér að skapi og það var ekki fyrr en eftir lesturinn að ég vissi að þeir birtust að hluta til í grein í tímaritinu The New Yorker, sem kallast „The Return“, en hana skrifaði Matar árið 2013, fyrir útgáfu bókarinnar. Svo ég leyfi mér að vera alveg hreinskilin, lesið bara greinina.
[Önnur af listanum: The Makioka Sisters eftir Jun'ichirō Tanizaki (sjá sér bloggfærslu).]

Þá er þetta komið, ég er búin að gera athugasemdir við bækurnar á bókalistum ársins 2016.

Í ár ætla ég að hafa annað fyrirkomulag á þessu og deila hugsunum mínum fyrr, en ég læt samt einhvern tíma líða á milli þess sem ég birti bókalista og svo áliti mínu á verkunum sem eru á honum.



№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi

$
0
0


Er ekki tilvalið að deila nýjum bókalista á þessum fyrsta vordegi? Þrjár bókaútgáfur, Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail, útveguðu fyrstu þrjár bækurnar á listanum og fyrir það ber að þakka. Síðar mun ég birta ritdóma um skáldsöguna Pachinko og dagbók Astrid Lindgren, A World Gone Mad, sem hún skrifaði á stríðsárunum, en í dag langar mig að beina athygli ykkar að einstöku norðurkóresku smásögusafni, The Accusation eftir Bandi (skáldanafn). Höfundurinn, óþekktur, býr enn í Norður Kóreu og hætti lífi sínu með skrifunum og því að smygla þeim úr landi (sjá meira hér að neðan). Þetta er № 8 bókalistinn:

· Pachinko  eftir Min Jin Lee
· A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 
· The Accusation  eftir Bandi
· Seize the Day  eftir Saul Bellow
· The Blue Touch Paper  eftir David Hare
· Another Country  eftir James Baldwin
· Pale Fire  eftir Vladimir Nabokov
· The Sea, The Sea  eftir Iris Murdoch


Seize the Day er fyrsta verkið sem ég les eftir Saul Bellow - löngu tímabært! Vinur á Instagram og bókaormur sagði það vera „incredible“ og bætti við „it's haunted me most of my adult life.“ Ég ætlaði að byrja á Herzog en hún var ekki fáanleg á bókasafninu. Leikskáldið David Hare er í miklu uppáhaldi. Að hlusta á hann tala um skrif er hrein unun og loksins ætla ég að lesa æviminningar hans. Hann skrifaði til dæmis handrit kvikmyndarinnar The Hours (2002), sem byggist á skáldsögu Michael Cunningham. Yndisleg bók, yndisleg mynd. Ég er að endurlesa eina bók á listanum: The Sea, The Sea eftir Murdoch. Ég var líklega of ung þegar ég las hana því ég virðist afskaplega lítið muna eftir henni.

Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi

The Accusation eftir Bandi inniheldur sjö sögur um venjulegt fólk í Norður Kóreu. Bandi (eldfluga á kóresku) er skáldanafn hins óþekkta höfundar og til að vernda hann enn frekar var nokkrum smáatriðum breytt. Í athugasemd frá útgefanda er tekið fram að þau telji verkið vera „an important work of North Korean samizdat literature and a unique portrayal of life under a totalitarian dictatorship“ (samizdat merkir að prenta og dreifa bönnuðum ritum í einræðisríkjum). Fyrir utan það sem við sjáum í fréttum þá höfum við bara kynnst frásögnum og ritum fólks sem tekist hefur að flýja landið. Það sem gerir þessa bók einstaka er að í fyrsta sinn höfum við sögur eftir rithöfund sem býr þar enn. Í stað formála og þakkarorða eru ótitluð ljóð eftir höfundinn, sem lýsir sjálfum sér á þessa leið í hinu fyrrnefnda: „Fated to shine only in a world of darkness“. Hið síðarnefnda inniheldur ljóð sem fjallar um þá ósk hans að orð hans séu lesin:
Fifty years in this northern land
Living as a machine that speaks
Living as a human under a yoke
Without talent
With a pure indignation
Written not with pen and ink
But with bones drenched with blood and tears
Is this writing of mine

Though they be dry as a desert
And rough as a grassland
Shabby as an invalid
And primitive as stone tools
Reader!
I beg you to read my words.
Það sem ég vildi að allur heimurinn læsi þessar sögur og að Bandi gæti einn daginn notið höfundalaunanna sem frjáls maður. Ég er ekki búin með bókina en það sem ég hef lesið fram að þessu er harmþrungið. Félagslegar- og pólitískar aðstæður í Norður Kóreu, og skortur á mannréttindum, er eitthvað sem þekkjum, en þegar maður les sögur eftir einstakling sem býr við slíkar aðstæður þá skyndilega verður ástandið enn raunverulegra og sársaukafyllra.

The Accusation
Eftir Bandi
Serpent's Tail
Innbundin, 256 blaðsíður
KAUPA

Utagawa Hiroshige, A Red Plum Branch against the Summer Moon, c. upp úr 1840, viðarprent í lit

Næsti bókalisti verður sá japanski sem ég hef þegar minnst á hér á blogginu. Mér þótti því við hæfi að deila líka verki eftir japanska listamanninn Utagawa Hiroshige (einnig Andō Hiroshige, 1797-1858). Tré í vorblóma, mon dieu! Bráðum get ég drukkið latte á veröndinni og lesið undir bleikum blómum kirsuberjatrés ... gæðastund í lífi bókaunnanda.

myndir mínar | listaverk Utagawa Hiroshige er af vefsíðu The Art Institute of Chicago | fyrstu þrjár bækurnar á bókalistunum eru í boði bókaútgáfanna: Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail


nellikur á skrifborðinu mínu

$
0
0


Um daginn vorum ég og sonurinn að borða morgunmat þegar hann spurði mig hver væru uppáhaldsblómin mín. Án umhugsunar svaraði ég nellikur (á borðinu var vasi með gulum). „Af hverju?“ spurði hann. „Af því þær eru svo endingargóðar,“ sagði ég „þær lifa svo lengi.“ Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég svarað hvítir túlipanar eða bóndarósir (sem ég kalla alltaf peóníur). Þegar ég hugsa um það þá get ég varla gert upp á milli þessara þriggja, en nellikur eru blóm sem ég kaupi oftast (Spánverjar vissu hvað þeir sungu þegar þeir völdu rauða nelliku sem þjóðarblóm). Ég tók þessa mynd í morgun þegar ég var að njóta lattebolla með múskati. Nellikur og bókastaflar eru algeng sjón á skrifborðinu mínu. Njótið þessa miðvikudags!


litrík efni frá Lisa Fine Textiles

$
0
0


Mótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Ayesha Paisley mynstrið er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal-héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.


samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

$
0
0


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari upplýsingar): Cairo,
Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni.]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City, ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavid-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terraceí pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

Henri Matisse, Odalisque Sitting with Board, 1928

L&L:Í hvert sinn sem ég skoða textílhönnun þína þá hugsa ég alltaf, Þessi kona nær litum. Hvað er það með þig og liti? Hvernig stendur á því að litirnir þínir hitta beint í mark?
LF: I love color. My greatest inspiration and designs come from Persian and Indian Miniature Paintings ... The Company School Painting is probably my absolute obsession. I discovered Miniature Paintings and The Company School when I started spending time in India.
Við undirbúning þessarar færslu fann ég margar áhugaverðar ritgerðir og umfjallanir, t.d. Company Painting in Nineteenth-Century Indiaá vefsíðu Met-listasafnsins og Miniature Paintingá indversku vefsíðunni Centre for Cultural Resources and Training.

Indverskt smálistaverk: Rama's forest dwelling in Panchavati, ca. 1605, Norður Indland, frá valdatíð Mógúla

Smálistaverk hafa ratað inn á heimili móður hennar í Dallas, sem Lisa Fine hannaði. Í sumum herbergjum má sjá hennar eigin mynstur og þar sem hún notar mynstur ofan á mynstur er útkoman heldur betur lífleg. Í sjónvarpsherberginu, þar sem hún notaði mynstrið Malula (Coco), er galleríveggur með smálistaverkum (sjá annað sjónarhorn). Hún heimsækir móður sína reglulega og í gestaherberginu fær mynstur hennar Pasha (Indian Ocean), með upplífgandi pálmatrjám, að njóta sín.

Smálistaverk prýða vegg í sjónvarpsherbergi móður hennar í Dallas. Lisa Fine hannaði íbúðina.
Mynstur á vegg + sófa: Malula; á skemli: Baroda II.

Ég var forvitin að vita hvort eitthvað eitt mynstur hennar, eða fleiri, hefði sérstaka merkingu fyrir hana, hvort það væri kannski saga á bak við það sem væri henni kær. Hún svaraði: „I am very fickle about my designs. I guess it's sort of like a relationship. Today my favorite design is a new batik (Cambay) that just arrived.“ Nýju mynstrin verða til umfjöllunar á blogginu síðar.

Ég spurði hana einnig út í „verkfærakistuna“, hvað það væri sem hún notaði til að hanna mynstrin. Þegar ég bjóst við útlistunum á skissubókum og pennum gaf hún einfalt svar sem gefur næmt auga hennar til kynna: „Research, travel... I am always looking for beautiful patterns. I find some in museums, archives, markets, the streets of India...“ Á Instagram-síðu hennar Lisa Fine, Irving & Fine má sjá hvað fangar athygli hennar á ferðalögum. Nýverið ferðaðist hún um Indland þar sem enginn skortur var á mynstrum og litum, sem veittu ekki bara henni innblástur heldur líka þeim sem fylgja henni.

Indverskt smálistaverk: Four Women in a Palace Garden, mið-18. öld, Bundi, Indland

L&L:Ég veit að þú ert bókakona, að ferðaskrif höfða til þín og ævisögur. Áttu lista yfir uppáhaldsbækur, einhverjar sem þú vilt helst ekki skilja við?
LF: Some travel books that come to mind are The Road to Oxiana by Robert Byron and Mirrors of the Unseen Light by Jason Elliot ... memoirs are Late for Tea at the Deer Palace by Tamara Chalabi and The Hare with Amber Eyes by Edmund de Waal. I rarely read novels but I loved A Fine Balance by Rohinton Mistry.


Núna vildi ég óska að ég hefði ekki tekið skáldsögu Mistry af síðasta bókalistanum mínum. Ég hafði fengið hana að láni á bókasafninu en ákvað á síðustu stundu að láta hana bíða og setja frekar á indverskan bókalista sem ég hef í huga.

Þegar ég spurði hana um kaffiborðsbækur var hún mjög spennt fyrir einni sem er enn óútkomin: „I cannot wait for Miguel Flores-Vianna's coffee table book by Vendome Press to come out this fall.“ Umrædd bók nefnist Haute Bohemians og er eftir ljósmyndarann Miguel Flores-Vianna, (formála skrifar Amy Astley, hin nýja ritstýra tímaritsins Architectural Digest). Bókin kemur út í október og inniheldur 250 ljósmyndir. Kíkið á vefsíðu Vendome Press til að skoða nokkrar síður í bókinni.

Indverskt smálistaverk: Elephant and rider, ca. 1640, Norður Indland, frá valdatíð Mógúla

Við skulum halda áfram með kaffiborðsbækur.
LF: I love any of the books produced by The Calico Museum of Textiles in Ahmedabad [í Gujarat, í vesturhluta Indlands] and by Koç in Turkey. Both make beautiful books on textiles and on Islamic art ... The Calico Museum and The Bharany Collection in Delhi are my favorite places to look at antique textiles for inspiration.

The Koç family has a wonderful collection of Islamic art and a museum in Istanbul. They also produce beautiful art books. Two I like in particular are one on Ottoman tents and one on children's clothing in the Ottoman court. They can be purchased on the Cornucopia website.

Heilagar kýr Indlands á efnisbút úr Bharany-safninu

Fyrir nokkrum árum síðan var sýningá fyrrnefndum Bharany-safnmunum (sjá efnisbútinn hér að ofan, af Instagram). Í tengslum við sýninguna kom út bókin A Passionate Eye. Lisa Fine segir að muni úr Bharany-safninu megi sjá í National Museum in New Delhi og suma í búð þeirra.

Það eru fleiri staðir á Indlandi sem veita textílhönnuðinum innblástur: „You may want to add outside the City Palace in Jaipur there is a great store with antique textiles.“ (Hún deildi mynd af þakútsýninuí síðustu Indlandsferð hennar í mars.)

Henri Matisse, Moorish Screen, 1921

Lisa Fine er það sem ég kalla smekkkona par excellence. Íbúð hennar í París og gestaíbúð hafa birst í hönnunartímaritum. Þegar ég spurði hana út af hverju hún ákvað að koma sér upp heimili í París hefði svar hennar ekki getað verið meira laissez-faire:„Paris, looking for a change and it was a three month plan that lasted over ten years!“

Fyrir nokkrum árum síðan var innlit til hennar í tímaritinu Elle Decor. Á myndum af stofunni í París mátti sjá tvo púðaskemla (e. ottomans) sem eru greiptir í huga mér. Eðlilega! Hún sagði mér að hún hefði látið sérhanna þá fyrir sig með fornu suzani-áklæði og marokkóskum útsaumi. Svo heillandi!

Napoléon III púðaskemlar í stofu textílhönnuðarins í París

Fyrir aftan flauelssófann er handmálað hollenskt skilrúm úr leðri (þessir mynstruðu púðar!). Ef þið viljið skoða fleiri myndir af báðum íbúðunum í París og heimili móður hennar í Dallas, kíkið þá á myndasafn marsmánaðar 2017 á Lunch & Latteá Tumblr (tengill á heimild fylgir hverri mynd).

Ég vona að þið hafið haft gaman af því að kynnast textílhönnuðinum Lisa Fine betur. Fljótlega verða fleiri mynstur frá henni til umfjöllunar á blogginu.

Persnskt smálistaverk, smáatriði. Sjá ofar í fullri stærð

efsta myndin mín | heimildir: persnesk smálistaverk (+ smáatriði) af vefsíðu Harvard Art Museums | Henri Matisse málverk af vefsíðunum 1: HenriMatisse.org, 2: WikiArt, 3: WikiArt | indversk smálistaverk af vefsíðunum 1: Ashmolean Museum, 2: The David Collection, 3: Ashmolean Museum | sjónvarpsherbergi móður Fine í Dallas af vefsíðu House Beautiful, nóvember 2015 · Miguel Flores-Vianna | Bharany Collection smáatriði af síðu Lisa Fine, Irving & Fineá Instagram | stofa Fine í París af vefsíðu Elle Decor, nóvember 2008 · Simon Upton


fæðingardagur Karen Blixen

$
0
0


Gleðilega páska! Í dag er fæðingardagur dönsku skáldkonunnar Karen Blixen (f. 17. april 1885, d. 7. september 1962), sem skrifaði margar sögur undir skáldanafninu Isak Dinesen (Babette's Feast and Other Stories, Shadows on the Grass, Seven Gothic Tales, Winter's Tales og Last Tales). Hún var frábær sögumaður, best þekkt fyrir bók sína Out of Africa (Jörð í Afríku), sem oft er lýst sem ljóðrænni hugleiðingu um líf hennar í Kenýa þar sem hún átti búgarð, kaffiplantekru (í bókinni er engin tímaröð). Flestir þekkja til Blixen vegna kvikmyndar Sydney Pollack: Kvikmyndin kann að gefa ykkur hugmynd að lífi Blixen í stórkostlegu landslagi Afríku, en aðeins með því að lesa bókina kynnist þið hinu sanna andrúmslofti. Fyrir mér er bókin lýsing á Afríku sem ég kem aldrei til með að upplifa. Löngu horfnu tímabili.

Í minnisbók hef ég skrifað tilvísun eftir Blixen. Spurð að því hvernig saga hefst fyrir rithöfund svaraði hún á dönsku:
Det begynder med atmosfære, et landskab, der for mig er vidunderligt skønt, og så – så kommer menneskene pludselig ind i billedet. Med det er de der, de lever, og jeg kan lade dem leve videre i bøgerne.
Það þarf varla að þýða þetta en hún er í raun að segja að fyrst sé það andrúmsloft, landslag, sem henni finnst dásamlegt og svo skyndilega kemur fólk inn í myndina. Þar með er það þar, lifir, og hún getur leyft því að lifa áfram í bókunum. (Ég fann tilvísunina á FB-síðunni Karen Blixen Museet.)

Í febrúar fengu aðdáendur Blixen frábærar fréttir þegar tilkynnt var um gerð sjónvarpsþáttaraðar eftir bók hennar Out of Africa.

mynd mín | myndin af Karen Blixen er úr bókinni Letters from Africa 1914-1931


lestrardagbók 2017

$
0
0


Nýverið rakst ég á frábært enskt orð sem er ekki að finna í orðabók: readlief (read og relief skeytt saman). Merking þess er þegar þú loksins kemst í það að byrja á bók sem þú hefur ætlað að lesa í mörg ár. Lestrarléttir væri kannski ágætt íslenskt orð, en bókalistarnir mínir hafa stuðlað að mörgum slíkum. Það er gefandi að strika bók af listanum og enn frekar ef hún reynist góð. Langar-að-lesa listinn minn styttist að vísu ekki neitt því ég er stöðugt að rekast á bækur sem rata á hann. Höfuðverkur bókaunnandans. Hér að neðan er að finna nokkrar pælingar um bækur sem voru á № 7 bókalistanum mínum, sem ég deildi í febrúar. Ég bjó til nýjan flokk fyrir þessar tilteknu færslur sem ég kalla Lestrardagbók (árið í titlinum gefur til kynna hvenær umræddur bókalisti birtist á blogginu).

№ 7 bókalisti (6 af 9):

· Fictions eftir Jorge Luis Borges. Þessu smásögusafni er ávallt lýst sem frumlegu. Það er bókmennta- og heimspekilegt og ekki fyrir alla. Ég hef ekki lesið neitt í líkingu við það. Fyrstu tvær sögurnar fönguðu mig ekki en um leið og ég byrjaði á þeirri þriðju þá var ekki aftur snúið. Sú saga kallast „Pierre Menard, Author of the Quixote“ (birtist í argentíska bókmenntaritinu Surí maí 1939) og fjallar um mann sem endurskrifar Don Quixote eftir Cervantes, línu fyrir línu. Hugmyndin að sögunni er snilld.

· The Grass is Singing eftir Doris Lessing. Þegar ég lauk lestrinum var mín fyrsta hugsun á ensku: powerful. Síðan þá hef ég heyrt marga nota sama orð yfir bókina sem var sú fyrsta eftir Lessing og kom út árið 1950. Hún byrjar á morði á aðalsögupersónunni Mary Turner og eftir því sem líður á lesturinn kynnumst við bakgrunni hennar og hvað leiddi til þessa harmleiks, í raun hvað sundraði lífi hennar á bóndabæ í Suður-Ródesíu (núna Simbabve). Lessing ólst þarna upp og lýsir afríska landslaginu meistaralega. Það eru mánuðir síðan ég lauk lestrinum og ég er enn að hugsa um bókina sem er góð sálfræðistúdía.

· The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Þessi telst til klassískra verka og er ekki fyrir alla. Ég átti erfitt með nokkra hluta, áveðnir partar fannst mér ýmist fullir af endurtekningum eða of langir, og það tók mig dágóðan tíma að klára bókina. En það er ekki hægt að þræta fyrir þá staðreynd að þetta er áhrifaríkt bókmenntaverk. Góðu hlutarnir eru eftirminnilegir og ég er glöð að ég tók loks af skarið og sneri þessari bók upp í lestrarlétti.

· Captain Corelli's Mandolin eftir Louis De Bernières. Ég las einhvers staðar að þetta væri skáldsaga með hjarta og sú lýsing á vel við. Það eina sem truflaði mig örlítið á fyrstu 100 blaðsíðunum eða svo voru kynningar á persónunum (hver fær sér kafla), en hann komst ekki hjá þeim því í bókinni koma margir við sögu. Bernières bætir upp fyrir þetta með dásamlegum, og oft kómískum, smáatriðum, sérstaklega lýsingum á lífinu í þorpinu (bókin gerist á grískri eyju í seinni heimsstyrjöldinni).

· Instead of a Book: Letters to a Friend eftir Diana Athill. Ég er hrifin af bréfum en undir lokin á þessu safni var ég við það að missa þolinmæðina. Athill og vinur hennar voru að eldast og síðustu bréfin innihéldu of mikið af tali um heilsufar, sem er ósköp eðlilegt á milli náinna vina en allt annað en skemmtilegt að lesa. Hún kemur einmitt að þessu í eftirmálanum og segir þetta vera ástæðu þess að hún hafði bréfin ekki fleiri. Bók hennar Stet er á langar-að-lesa listanum mínum og ég hef ekki lesið neitt nema lof um hana þannig að kannski ættuð þið að íhuga að lesa hana fyrst ef þið hafið áhuga á skrifum Athill.

· Local Souls eftir Allan Gurganus. Ég ákvað að fresta lestrinum á þessari. Eins og fram kom í bloggfærslunni ætlaði ég alltaf að lesa bók hans Oldest Living Confederate Widow Tells All  á undan þessari. Það var akkúrat það sem ég ákvað svo að gera.

· In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910 eftir Sue Roe. Ég er ekki listfræðingur en ég held að höfundurinn hafi unnið heimavinnuna sína vel. Mér fannst bókin áhugaverð en hefði viljað sjá meira af ljósmyndum af málverkum (ég var stöðugt að fletta upp á netinu verkum sem komu fyrir í textanum til að vera viss um að ég væri með rétt í huga eða til að sjá þau sem ég kannaðist ekki við). Mér fannst gaman að lesa um Picasso, Matisse og aðra listamenn en stundum voru stuttar sögur úr lífi fólks sem tengdist þeim sem, að mínu mati, höfðu lítið vægi. Að því leyti hefði bókin mátt við frekari endurskrifum.

Hafið þið fundið fyrir lestrarlétti (readlief ) nýlega?

Þessa dagana er ég að klára að lesa bækurnar á № 8 bókalistanum og kem til með að skrifa tvo ritdóma, um stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad, og um skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.


№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir I

$
0
0


Hugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
· First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
· The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
· Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
· The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu (þýðandi Edward G. Seidensticker)
· The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu (þýðandi Dennis Washburn)
· My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo (myndskreyting Hayao Miyazaki)

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinuí Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði svo gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.



The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker | 17. júní

$
0
0


„In a certain reign there was a lady not of the first rank whom the emperor loved more than any of the others.“ Svo hefst The Tale of Genji sem japanska hirðdaman Murasaki Shikibu ritaði í upphafi 11. aldar (Heian-tímabilið). Tvær þýðingar á verkinu var að finna á № 9 bókalistanum mínum, þeim með japönskum bókmenntum eingöngu - ég átti eftir að ákveða hvora ég kæmi til með að lesa. Ég var svo heppin að eignast ólesið, notað eintak af þýðingu Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Það er ekki einu sinni búið að draga út borðann eða áfasta bókamerkið.

Ég er næstum því búin að lesa öll verkin á bókalistanum þannig að ég deili líklega öðrum fljótlega. Mér líkar að lesa nokkrar bækur í einu og þar sem The Tale of Genji er 1184 blaðsíður finnst mér líklegt að ég lesi fyrstu 250 síðurnar og eftir það einn til tvo kafla daglega meðfram öðrum bókum þar til ég klára. Svo má vel vera að ég sökkvi mér alveg ofan í bókina.


Að lokum óska ég ykkur gleðilegrar þjóðhátíðar. Á vesturströnd Skotlands er sólríkur sumardagur og við hjónin fögnum 19 ára brúðkaupsafmæli.


TENGDAR FÆRSLUR  

sumar 2017 | nýjar bækur

$
0
0


Lengsti dagur ársins er runninn upp og á vesturströnd Skotlands eru ský á lofti og létt rigning af og til. Hið fullkomna veður til að minnast á nýjar bækur, ekki satt, og að finna angan bóndarósanna á skrifborðinu mínu. Ég pantaði tvo titla á listanum á bókasafninu og vona að ég geti bætt þeim á næsta bókalista:

· The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy (Hamish Hamilton). Loksins, eftir tuttugu ár, ný skáldsaga frá Roy! Bók hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker Prize-verðlaunin árið 1997, er ein af eftirminnilegustu bókum sem ég hef lesið.
· Theft by Finding: Diaries: Volume One eftir David Sedaris (Little, Brown). Nýverið var hann gestur á hlaðvarpi The NYT Book Review, þar sem hann talaði um og las upp úr dagbókinni, og ég var í hláturkasti í eldhúsinu. Hann er óborganlegur.
· House of Names eftir Colm Tóibín (Viking). Höfundur sem ég hef enn ekki lesið. Á langar-að-lesa listanum mínum er skáldsaga hans Brooklyn, sem mig langaði að lesa áður en ég sá kvikmyndina (2015), sem skartar Saoirse Ronan í aðalhlutverki. Gat ekki beðið og er svo glöð að ég lét undan. Myndin er svo falleg; ég get horft á hana aftur og aftur.
· The Unwomanly Face of War eftir Svetlana Alexievich (Penguin). Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015. Lengi hefur verið beðið eftir enskri þýðingu á þessu klassíska verki hennar með reynslusögum sovéskra kvenna í Síðari heimsstyrjöldinni. Kemur út í júlí.
· Friend of My Youth eftir Amit Chaudhuri (Faber). Fjallar um mann, sem heitir einmitt Amit Chaudhuri, sem snýr aftur á æskuslóðirnar, til borgarinnar Bombay. Kemur út í ágúst.


№ 10 bókalisti: Modiano enduruppgötvaður

$
0
0
№ 10 bókalisti: Modiano, skáldsögur, latte · Lisa Hjalt


Sunnudagur, latte, bókahlaðvörp og nýr bókalisti. Þegar úti er alskýjað er tilvalið að eyða deginum með þessum hætti. Það eru níu bækur á listanum, sem sumum finnst kannski mikið, en margar þeirra eru stuttar og ég hef þegar klárað nokkrar, til dæmis aðra bókina eftir Patrick Modiano, In the Café of Lost Youth. Þessi franski rithöfundur hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2014 og er orðinn einn af mínum uppáhalds. [Uppfærsla: Ég breytti titli þessarar færslu þegar ég áttaði mig á því stuttu síðar að ég hafði lesið Modiano áður, fyrir mörgum árum síðan. Það var þessi þýska útgáfa af Villa Triste. Ég man enn eftir að hafa keypt hana í lítilli bókabúð í einni af þröngu hellulögðu götunum í Zurich. Ég þarf að lesa hana aftur; er búin að gleyma söguþræðinum.] Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að einungis ein bók eftir Modiano er til á íslensku, Svo þú villist ekki í hverfinu hérna (þýð. Sigurðar Pálsson). Mörg verka hans eru fáanleg á ensku og á bókasafninu hér í bænum er úrvalið sem betur fer gott.

№ 10 bókalisti:
· The Ballad of the Sad Café  eftir Carson McCullers
· Pedigree  eftir Patrick Modiano
· In the Café of Lost Youth  eftir Patrick Modiano
· Invisible Cities  eftir Italo Calvino
· Stoner  eftir John Williams
· Point Omega  eftir Don DeLillo
· Jigsaw: An Unsentimental Education  eftir Sybille Bedford
· The Captain's Daughter  eftir Alexander Pushkin
· Dancing in the Dark: My Struggle 4  eftir Karl Ove Knausgård

Það var kominn tími til að halda áfram með My Struggle-bækur Knausgård; ég var farin að sakna raddar hans. Eina bókin sem ég á í bunkanum er Jigsaw eftir Bedford, að hluta til sjálfsævisöguleg skáldsaga. Bókavinur á Instagram mælti með henni og eitthvað segir mér að ég eigi fljótlega eftir að næla mér í eintak æviminninga hennar, Quicksands.

Ég ætlaði að hafa nýjustu skáldsögu Arundhati Roy, The Ministry of Utmost Happiness, á listanum en ég er enn að bíða eftir eintakinu sem ég pantaði á bókasafninu. Hún verður á næsta lista. Í vikunni var hún gestur á Guardian bókahlaðvarpinu. Hún talaði ekki bara um bókina heldur líka um hlutverk sitt sem pólitískur aðgerðasinni í Indlandi, sem mér fannst áhugavert. Dómsmálin sem hafa verið höfðuð gegn henni eru mörg og fáránleg, en hún hefur mikla kímnigáfu og hikar ekki við að gera grín að andstæðingum sínum.

Ég hef þegar lesið allar bækurnar á japanska bókalistanum (№ 9), fyrir utan The Tale of Genji (doðranturinn undir kaffibollanum mínum). Ég sagði ykkur að ég myndi lesa hana rólega og, já, ég nýt lestursins. Ég skulda ykkur gagnrýni á tvær bækur og nokkra punkta úr lestrardagbókinni (rétt áður en ég ætlaði að deila færslunni eyddi ég óvart uppkastinu að gagnrýni minni á Pachinko. Ég kunni textann nokkurn veginn utan að þannig að ég þarf bara að pikka hann aftur). Vonandi verður júlí góður lestrarmánuður.


Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee

$
0
0
Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lisa Hjalt


Fyrr á árinu kom út skáldsagan Pachinko eftir Min Jin Lee, bandaríska skáldkonu af kóreskum uppruna, frá bókaútgáfunni Head of Zeus (Apollo). Mér barst eintak til að ritdæma og birti bókina á № 8 bókalistanum mínum. Verkið er reynslusaga kóreskrar fjölskyldu, um baráttu hennar og seiglu sem innflytjendur í Japan, og spannar átta áratugi 20. aldar. Tilfinningar mínar til bókarinnar eru eilítið blendnar, aðallega vegna þess að höfundur fer hratt yfir sögu - 490 síður bókarinnar eru fljótlesnar - og mér fannst stundum vanta að þróa persónur betur. Engu að síður tel ég boðskap bókarinnar mikilvægan og að hún hafi sögulegt mikilvægi því höfundurinn varpar ljósi á félagslegt vandamál sem ég var ómeðvituð um: þá meðferð og kúgun sem kóreskir innflytjendur hafa búið við í japönsku samfélagi áratugum saman.

Titill bókarinnar, orðið pachinko, krefst útskýringar. Það birtist fyrst þegar bókin er hálfnuð. Pachinko er spilakassi með stálkúlum og pachinko-salirnir eru risastór iðnaður í Japan, með hærri útflutningstekjur en bílaiðnaðurinn. Pachinko-salirnir voru einn fárra staða sem vildu ráða fólk frá Kóreu í vinnu. Auk þess var kofahreisi í kóreskum gettóum eina húsnæðislausnin því enginn vildi leigja þeim húsnæði.

Í Pachinko er rakin saga fjögurra kynslóða, sem byrjar árið 1911 í sjávarþorpi á suðausturhluta Kóreuskagans, ári eftir að Japanir innlimuðu landið. Til að spóla aðeins áfram: hin fimmtán ára gamla Sunja verður barnshafandi eftir ástarsamband við kvæntan mann. Fjölskyldu hennar er forðað frá útskúfun þegar Ísak, kristinn prestur frá norðurhluta landsins, býðst til að kvænast henni og taka hana með sér til Osaka, í Japan, þangað sem þau koma í apríl 1933.
Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lisa Hjalt


Við upphaf ferðalagsins, í kringum blaðsíðu 80, fer sagan á flug og verður nokkuð spennandi. Ritstíllinn er einfaldur og vegna samræðna er takturinn hraður, sem einnig er megin galli bókarinnar. Í stað þess að þróa persónurnar, gefa þeim meiri dýpt, og að leyfa lesandanum að staldra aðeins við með þeim til að öðlast betri innsýn þá virðist sem höfundurinn sé stöðugt að keyra söguna áfram, kannski til að halda í við sögulegt samhengi. Saga Min Jin Lee er sannarlega áhugaverð en frásögnina skortir fyllingu.

Hún skiptir bókinni í þrjá hluta: Fyrstu tveir eru aðallega um reynslu innflytjandans, um baráttu Sunja og fjölskyldu hennar í kóresku gettói, og á bóndabæ á meðan heimstyrjöldin geisar. Þriðji hlutinn hefst í apríl 1962 og fjallar aðallega um afkomendurna. Á þeim punkti er fjölskyldan fjárhagslega stöndugri og síðar uppskera yngri meðlimirnir vel vegna pachinko-iðnaðarins. Að mínu mati er það þarna sem höfundurinn fer út af sporinu; sá þriðji er veikasti hlekkur bókarinnar. Min Jin Lee kynnir nýjar persónur til sögunnar - fáar sem höfðuðu til mín - og skilur eftir tómarúm þegar hún allt að því yfirgefur eldri kynslóðina. Það virðist sem Sunja og eldri fjölskyldumeðlimirnir falli í bakgrunninn, eins og þau séu ekki lengur mikilvæg, þegar það einmitt blasir þannig við mér að svo mikið er ósagt um sögu þeirra, einkum tilfinningar.

Sunja er persóna sem ég hændist að og vonaðist til að kynnast betur í þriðja hlutanum. Eftir um það bil hundrað síður mátti loksins gægjast inn í hugarheim hennar: „All her life, Sunja had heard this sentiment from other women, that they must suffer—suffer as a girl, suffer as a wife, suffer as a mother—die suffering. Go-saeng—the word made her sick. What else was there besides this? She had suffered to create a better life for Noa, and yet it was not enough“ (bls. 420). Þetta var skammvinnt, því miður. Höfundurinn leiddi okkur beint inn í samræður og hélt áfram með söguna.

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lisa Hjalt


Þó að Pachinko teljist seint til meistaraverka á bókmenntasviðinu ber að virða framlag höfundarins. Partur af mér vill standa með bókinni vegna þema hennar og mikilvægis fyrir okkar tíma: innflytjendur og sjálfsmynd, og hvernig við komum fram við innflytjendur og flóttafólk. Þarna finnst mér Min Jin Lee takast vel til. Þarna er að finna ádeilu á Japan en hún hvorki matar lesendur af skoðunum né fellur í þá gryfju að láta þá sjá hlutina í svörtu og hvítu. Ég treysti fullkomlega rannsóknarvinnu hennar fyrir ritun bókarinnar, reynslu fólks frá Kóreu í japönsku samfélagi, og trúi að hún láti það í hendur lesandans að fella dóm.

Lesendur sem eru einungis í leit að sögu munu njóta lesturs bókarinnar, njóta þess hversu fljótlesin hún er. En ég er hrædd um að lesendur sem snúa sér að bókmenntum fyrir ritstílinn, fyrir setningar sem þá langar að lesa aftur, og jafnvel skrifa niður, sitji uppi eilítið tómhentir.

Pachinko
Eftir Min Jin Lee
Head of Zeus / Apollo
Innbundin, 490 blaðsíður
KAUPA

Pachinko birtist á № 8 bókaslistanum mínum.


№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur

$
0
0
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Hjalt
№ 11 bókalisti | persneskur köttur og Arundhati Roy · Lísa Hjalt


Sunnudagsmorgun, kaffi, nýr bókalisti og Gilead eftir skáldkonuna Marilynne Robinson. Treystið mér, ekki amaleg byrjun á deginum. Júlí er enn ekki liðinn og ég er þegar að deila nýjum bókalista - annar listinn í mánuðinum! Ástæðan er einföld: það voru margar stuttar bækur á þeim síðasta. Nýi listinn er með örlitlu Miðausturlandabragði. Lengi hef ég ætlað að lesa Palace Walk, fyrstu bókina í Kaíró-þríleiknum eftir egypska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz. Annar höfundur sem ég er að lesa í fyrsta sinn er hin ísraelska Ayelet Gundar-Goshen. Kunningi og bókmenntaunnandi á Instagram mælti með seinni bók hennar Waking Lions (þýdd úr hebresku af Sondra Silverston) og gaf þrjár ástæður: 1) Gerist í borginni Beersheba (Beer-Sheva) sem, samkvæmt honum, er alveg nýtt í ísraelskum bókmenntum. 2) Er hið fullkomna sögusvið fyrir persónurnar, sem eru á jaðri þjóðfélagsins. 3) Sagan varpar eilitlu ljósi á kynþáttafordóma í Ísrael; hún er um flóttafólk frá Erítreu og Súdan. Það þurfti ekki meira til að selja mér bókina sem ég fékk að vísu á bókasafninu þegar ég sótti eintak mitt af nýjustu skáldsögu Arundhati Roy.

№ 11 reading list:
· The Ministry of Utmost Happiness  eftir Arundhati Roy
· Palace Walk  eftir Naguib Mahfouz
· Waking Lions  eftir Ayelet Gundar-Goshen
· The Black Prince  eftir Iris Murdoch
· Gilead  eftir Marilynne Robinson
· So You Don't Get Lost in the Neighbourhood  eftir Patrick Modiano
· The Redbreast  eftir Jo Nesbø
· Instead of a Letter  eftir Diana Athill
· Let's Explore Diabetes with Owls  eftir David Sedaris


Ég er enn að lesa Jigsaw eftir Sybille Bedford sem var á síðasta bókalista en er þegar búin að klára The Redbreast (Rauðbrystingurí íslenskri þýðingu) eftir Norðmanninn Jo Nesbø á þeim nýja. Á einhverjum punkti varð þessi þriðja bók um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (sú fyrsta í Osló-seríunni) mjög spennandi og ég gat ekki lagt hana frá mér. Glæpasögur eru ekki beint sú tegund bókmennta sem ég sæki í en stundum hef ég lesið allt fáanlegt eftir ákveðinn glæpasagnahöfund (aðallega norrænu höfundana; það byrjaði allt með okkar manni Arnaldi Indriðasyni og sögupersónu hans Erlendi). Harry Hole hans Nesbø er áhugaverður karakter og ég verð að sjá hvað gerist í næstu bókinni um hann, Nemesis.

Ég er byrjuð á bók Sedaris en varð að hætta að lesa hana fyrir háttatíma því sonur minn, sem finnst notalegt að lesa með mér, gat ekki einbeitt sér að sinni bók vegna hlátursins í mér. Þetta er tár-renna-niður-kinnarnar hlátur. Ég reyndi að bæla hann niður en það tókst ekki. Sedaris er einfaldlega hættulega fyndinn og ég hlakka til að lesa Dagbækurnar. Marilynne Robinson er höfundur sem ég er að lesa aftur; ég las Homeþegar við bjuggum í Luxembourg. Ég skil ekki út af hverju það hefur tekið mig svona langan tíma að næla mér í Gilead (báðar bækurnar gerast á sama tímabili í sama bænum, einnig bók hennar Lila). Prósinn í Gilead er virkilega fallegur; engin furða að bókin færði henni National Book Critics Circle-verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir árið 2005.
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Hjalt


Mig langar að enda á tilvísun í skáldkonuna Iris Murdoch (1919-1999) sem ég hef þegar deilt á Instagram og langaði að halda til haga á blogginu líka. Spurð út í þá aðferð sem hún notar við skáldskapinn í viðtali sem birtist í The Paris Review, sumartölublaði ársins 1990, svaraði Murdoch:
Well, I think it is important to make a plan before you write the first sentence. Some people think one should write, George woke up and knew that something terrible had happened yesterday, and then see what happens. I plan the whole thing in detail before I begin. I have a general scheme and lots of notes. Every chapter is planned. Every conversation is planned. This is, of course, a primary stage, and very frightening because you've committed yourself at this point ... [Og þegar hún talar um næsta stig.] The deep things that the work is about declare themselves and connect. Somehow things fly together and generate other things, and characters invent other characters, as if they were all doing it themselves. (Tölublað 115, sumar 1990)


Viewing all 122 articles
Browse latest View live